Samið um móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs skrifaði undir samning við Pólska skólann og samtökin Móðurmál, á dögunum, sem gerir móðurmálskennslu á þeirra vegum gjaldfrjálsa fyrir börn í Reykjavík. Katarzyna Rabęda skrifaði undir fyrir hönd Pólska skólann og Renata Emilsson Pesková fyrir Móðurmál sem eru samtök um tvítyngi.

Geta nýtt frístundastyrkinn í annað

Með samningnum eykst stuðningur við Móðurmál og Pólska skólann svo að þeirra mikilvæga kennsla verði endurgjaldslaus fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Þannig verði tryggt aðgengi að móðurmálskennslu án tillits til efnahags og stuðlað að því að börn geti fengið kennslu í sínu móðurmáli án þess að nýta sinn frístundastyrk. Um leið gefst tækifæri til að nýta frístundastyrkinn í aðrar frístundir sem er mikilvægt og nauðsynlegt öllum börnum.

Reykjavíkurborg mun greiða gjöld barna á aldrinum þriggja til sextán ára, með lögheimili í Reykjavík sem stunda nám í sínu móðurmáli við samtökin.

Samþykktu viðbótarfjármagn fyrir kennsluna

Borgarráð samþykkti samninginn á fundi 19. október síðastliðinn sem og að veita auka fjármagn vegna þessa þar sem ekki er gert ráð fyrir kostnaðinum í fjárhagsramma skóla- og frístundasviðs. Samningurinn gildir þetta skólaár og er viðbótarskref í að styðja við móðurmálskennslu barna með fjölbreyttan tungumála bakgrunn. Fram að þessu hafa bæði Pólski skólinn og Móðurmál þurft að reiða sig á staka styrki. Reykjavíkurborg hefur fram að þessu stutt vel við kennsluna með því að útvega húsnæði fyrir kennsluna og í formi styrkja.

Á myndinni eru fulltrúar Móðurmáls, Pólska skólans, skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur og þar á meðal starfsfólk Miðju og læsis.

Myndband var gert um starfsemi Móðurmáls sem má sjá hér.